Matur, menning, heilsa
Matarbloggið mitt
Steiktar fiskibollur
Uppskrift:
400 gr ýsuflök
1 meðalstór laukur
1 tsk salt
1/4 tsk pipar
1 1/2 - 2 sk kartöflumjöl
3 msk hveiti
1 egg
1 1/2 - 2 dl mjólk
3 dl vatn
1-2 tsk fiskikraftur
Sósa:
soðið af bollunum
1 dl vatn eða mjólk
1 1/2 msk hveiti
ef til vill 2-3 dropar sósulit
Aðferð:
Samkvæmt uppskrift átti að skafa fiskinn úr roðinu. Mér tókst það ekki alveg svo ég roðfletti hann bara og skar í litla bita og setti í skál. Þar sem það var barn sem ætlaði að borða þessa fiskibollur, athugaði ég mjög vel hvort það væri nokkuð bein í fisknum. Næst setti ég fiskinn í hrærivélina og hræðri í smástund. Á meðan flysjaði ég laukinn og skar niður í litla bita. Ég setti svo laukinn, saltið og piparinn út í hjá fisknum og hrærði örlítið lengur. Að því loknu settiég hveitið út í, en ég átti ekki kartöflumjöl þannig að ég setti meira af hveiti en gefur til í uppskrift. Næst setti ég eggið út í og hrærði örlítið. Samkvæmt uppskrift á að setja 1 1/2 - 2 dl af mjólk út í, en degið var svo fínt hjá mér að ég bætti einungis 0,5 dl af mjólk út í og hrærði. Nú var degið tilbúið og notaði ég því næst 2 skeiðar til þess að móta bollur úr deginu. Ég setti þær á pönnu með olíu og steikti.
Næst var komið að sósunni og setti ég soðið af bollunum í pott ásamt fiskikraftinum. Ég hristi saman í hristiglasi vatni og hveiti og helti því mjög varlega út í soðið. Mikilvægt að hræra mjög vel í á meðan. Þá var sósan tilbúin og helti ég henni út á pönnuna þar sem fiskibollurnar voru.
Ég eldaði þessar bollur heima hjá föður mínum og konu hans. Við öll mjög sammála um að þetta væru alveg virkilega góðar bollur. Dóttir mín hámaði þær algjörlega í sig svo það er á hreinu að þessi uppskrift verður gerð aftur á mínu heimili.
Ég bar fiskibollurnar fram með kartöflum og grænmeti.





