Matur, menning, heilsa
Matarbloggið mitt
Kjötsúpa
Uppskrift:
13 dl vatn
600 g lambakjöt (helst leggi, kjötið skorið af beinum)
ef til vill 1-2 nautakjötsteningar (fer eftir stærð)
1 tsk salt
7 msk súpujurtir
4-6 meðalstórar kartöflur
1 stór eða meðalstór gulrófa
3-4 gulrætur
100 g hvítkál
1/2 blaðlaukur eða 1 meðalstór laukur
3-4 msk. blómkáls eða blaðlaukssúpuduft.
Aðferð:
Ég lét 12 dl af vatni í pott og á meðan það hitnaði hreinsaði ég kjötið og skar í meðalstóra bita. Ég lét kjötið út í sjóðandi vatnið ásamt nautakjötsteningunum og leyfði suðunni að koma up. Þá stillti ég á minnsta hita en varð að passa mig á því að suðan dytti ekki niður. Ég veiddi svo forðuna ofan af þegar kjötið hafði soðið í smá stund. Ég bætti saltinu ásamt súpujurtunum út í og leyfði að sjóða í 55 mínútur. Á meðan það sauð flysjaði ég kartöflur, rófuna og gulræturnar og skar í litla bita. Ég skar svo hvítkálið og laukinn smátt og bætti svo öllu grænmetinu í pottinn hjá kjötinu. Næst hristi ég saman blómkálssúpuduftið og seinasta desilítrann af vatninu (það á að vera kalt) og helti því svo út í hjá kjötinu og grænmetinu og leyfði að sjóða í 15 mínútur í viðbót.
Mér fannst frekar mikið af grænmeti í þessari súpu svo næst þegar ég geri hana þá mun ég ekki setja eins mikið af grænmeti og kannski örlítið meira af kjöti.
Ég bauð vinkonu minni, syni hennar og systur minni í mat þetta kvöld. Dóttir mín og sonur vinkonu minnar voru alveg æst í súpuna og borðuðu vel af henni. Okkur fullorðnu fannst hún einnig mjög góð. Með súpunni var ég svo með brauð sem ég bakaði (löng hveitibrauð).



